Fótbolti

Mancini: Navarro er skræfa

Navarro hljóp undan leikmönnum Inter eins og lamb með úlfahjörð á hælunum
Navarro hljóp undan leikmönnum Inter eins og lamb með úlfahjörð á hælunum AFP

Roberto Mancini, þjálfari Inter Milan, segir að David Navarro hjá Valencia sé skræfa. Þetta sé eina orðið sem hægt sé að nota til að lýsa manni sem hagar sér eins og Navarro gerði í gær.

Til átaka kom eftir leik Valencia og Inter í Meistaradeildinni í gær. Navarro var á varamannabekknum þegar átökin brutust út en hljóp inn á völlinn og kýldi Nicolas Burdisso hjá Inter með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Navarro beið ekki boðanna eftir það og hljóp hræddur í burtu undan nokkrum leikmönnum Inter sem eltu hann reiðir um allan völl.

"Ég sá ekki atvikið af því ég var fyrsti maðurinn til að ganga af velli eftir að flautað var af. Strákarnir sögðu mér svo frá því sem gerðist og nú er ég búinn að skoða myndbandsupptökur af látunum. Það eina sem ég get sagt um Navarro er að hann er skræfa. Það er ekki hægt að finna annað orð yfir mann sem gefur öðrum manni á kjaftinn og hleypur svo í burtu," sagði Mancini.

Hinn nefbrotni Burdisso var á sama máli. "Ég átti í deilum við annan mann á vellinum og það sem Navarro gerði er ekki sérlega karlmannlegt. Ég var samt ánægður með það hvernig mínir menn þjöppuðu sér saman í kjölfarið og það er mesta synd að við höfum fallið úr keppni," sagði Burdisso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×