Körfubolti

Troðslan kostaði 70 þúsund krónur

CJ Miles fékk sjaldgæft tækifæri til að spreyta sig í gær og uppskar fallega troðslu og sekt
CJ Miles fékk sjaldgæft tækifæri til að spreyta sig í gær og uppskar fallega troðslu og sekt NordicPhotos/GettyImages

C.J. Miles, tvítugur leikmaður Utah Jazz, átti heldur bitra innkomu með liði sínu í sigri á Charlotte Hornets í gærkvöld. Miles lék aðeins tvær mínútur í blálokin á stórsigri Utah, en uppskar lítið annað en 70 þúsund króna sekt.

Miles er einn af minni spámönnum liðsins og gerði allt vitlaust á heimavelli Utah þegar hann tróð viðstöðulaust eftir sendingu félaga síns í lok leiksins. Tilþrifin voru svo mikil að hann hékk lengi í körfuhringnum til að stöðva sig og fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir vikið. Sektin fyrir að fá dæmda á sig tæknivillu í NBA er 70 þúsund krónur og því voru þetta ansi dýrar tvær mínútur fyrir guttann.

"Ég trúi ekki að það hafi verið dæmd á mig tæknivilla fyrir þetta, því það var brotið á mér þegar ég fór upp og því varð ég að grípa í hringinn til að slasa mig ekki. Ef ég hefði vitað að það ætti eftir að kosta mig þúsund dollara að spila tvær mínútur - hefði ég líklega afþakkað það," sagði Miles agndofa.

"Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af þessari sekt - við reddum honum. Þetta voru svo flott tilþrif hjá honum að við getum ekki látið hann borga þetta sjálfan," sagði Carlos Boozer félagi hans hlæjandi eftir leikinn, en hann er einn af launahæstu leikmönnum Jazz.  Utah vann leikinn 120-95 og er með fjórða besta árangurinn í NBA deildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×