Körfubolti

Wade ætlar í endurhæfingu

Dwyane Wade ætlar að fresta uppskurði á öxl fram á vor eða sumar
Dwyane Wade ætlar að fresta uppskurði á öxl fram á vor eða sumar NordicPhotos/GettyImages

Dwyane Wade, leikmaður Miami Heat og verðmætasti leikmaður lokaúrslitanna í NBA síðasta vor, tilkynnti nú síðdegis að hann ætli að reyna að vera með liði sínu í úrslitakeppninni sem hefst þann 21. apríl. Wade fór úr axlarlið á dögunum og þarf í uppskurð, en hann hefur nú ákveðið að reyna að fresta því þangað til í sumar.

"Þetta var ekki auðveld ákvörðun, en ég gat ekki horft upp á það að sitja á hliðarlínunni sem áhorfandi í vor ef ég ætti á annað borð einhverja möguleika á að snúa aftur. Það auðveldaði ákvörðun mína að ég fékk grænt ljós frá læknum, en þetta þýðir alls ekki að ég verði örugglega klár í slaginn í vor. Ég á eftir að sjá hvernig gengur í endurhæfingunni á næstu tveimur til þremur vikum - og þá er hægt að taka endanlega ákvörðun um framhaldið," sagði Wade, sem er einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar.

Möguleikar Miami á að verja titil sinn hanga nú á herðum Wade, en liðið hefur átt í miklum meiðslum í allan vetur. Shaquille O´Neal er nú óðum að finna sitt gamla form eftir hnéuppskurð, en ljóst er að möguleikar liðsins í úrslitakeppninni dvína mjög ef Wade getur ekki verið með. Hann er sem stendur fjórði stigahæsti leikmaðurinn í NBA deildinni með um 28 stig að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×