Körfubolti

New Orleans - Utah í beinni í nótt

Chris Paul sækir hér að Deron Williams í leik liðanna í fyrra
Chris Paul sækir hér að Deron Williams í leik liðanna í fyrra NordicPhotos/GettyImages

Leikur New Orleans Hornets og Utah Jazz verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Fjölvarpinu klukkan eitt í nótt. Þarna er á ferðinni áhugavert einvígi leikstjórnendanna Chris Paul og Deron Williams, sem eru án efa leikstjórnendur framtíðarinnar í NBA.

Utah hefur unnið 39 leiki og tapað 19 og er búið að koma mjög á óvart með góðri spilamennsku í vetur. Liðið getur jafnað sinn besta árangur á útivelli með fjórða sigrinum í röð í kvöld.

Það verður hægara sagt en gert gegn New Orleans sem hefur verið á góðri siglingu undanfarið eftir að það endurheimti loksins flesta lykilmenn sína úr meiðslum. New Orleans hefur unnið 28 leiki og tapað 31, en það gefur ekki rétta mynd af styrk liðsins sem stefnir óðfluga á að vinna sér sæti í úrslitakeppninni.

Eins og áður sagði verður leikurinn í kvöld áhugaverðastur fyrir þær sakir að þar mætast tveir bestu leikstjórnendur yngri kynslóðarinnar í NBA - þeir Deron Williams hjá Jazz og Chris Paul hjá Hornets. Paul var kjörinn nýliði ársins fyrir frammistöðu sína hjá liðinu á síðustu leiktíð og Deron Williams hefur vaxið gríðarlega á þessu tímabili.

Tölfræði þeirra tveggja er nokkuð áþekk. Paul skorar að meðaltali 17,4 stig og gefur 8,6 stoðsendingar en Williams skorar 17,3 stig og gefur 9,3 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×