Körfubolti

Upphitun fyrir Miami - Detroit á Sýn annað kvöld

Mikið mæðir á tröllinu Shaquille O´Neal á næstu vikum
Mikið mæðir á tröllinu Shaquille O´Neal á næstu vikum NordicPhotos/GettyImages

Það verður sannkallaður stórleikur á dagskrá Sýnar klukkan eitt annað kvöld þegar meistarar Miami Heat taka á móti erkifjendum sínum Detroit Pistons í NBA deildinni. Detroit hefur mjög örugga forystu í fyrsta sætinu í Austurdeildinni, en Miami er sem stendur í sjöunda sætinu og þarf nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Miami verður sem fyrr án síns besta manns, Dwyane Wade, sem fór úr axlarlið á dögunum. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort Wade fer í uppskurð strax vegna meiðsla sinna eða ekki - en hann verður frá keppni í að minnsta kosti mánuð engu að síður.

Shaquille O´Neal þarf því að draga vagninn fyrir Miami, en hann er nýbyrjaður að spila á ný eftir langa fjarveru vegna hnéuppskurðar. O´Neal skoraði 23 stig í sigri Miami á Washington í síðasta leik, en það er ljóst að mikið mun mæða á miðherjanum hrikalega sem verður 35 ára gamall eftir nokkra daga. Miami hefur unnið 28 leiki og tapað 27 og er alls ekki öruggt með sæti í úrslitakeppninni í vor.

Detroit hefur á hinn bóginn gengið allt í haginn á síðustu vikum og hefur liðið fjögurra leikja forskot á liðið í öðru sæti í Austurdeildinni, Washington. Detroit hefur unnið 36 leiki og tapað aðeins 19 og þá hefur liðið verið á mikilli sigurgöngu síðan Chris Webber gekk í raðir liðsins frá Philadelphia. Liðið hefur t.a.m. unnið 9 af síðustu 10 leikjum sínum og 15 af 18 síðan Chris Webber tók stöðu í byrjunarliðinu þann 19. janúar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×