Körfubolti

Wade hallast að sjúkrameðferð

Ákvörðunar Dwyane Wade er beðið með mikilli eftirvæntingu, en hún kemur til með að ráða miklu um baráttuna í Austurdeildinni í vor
Ákvörðunar Dwyane Wade er beðið með mikilli eftirvæntingu, en hún kemur til með að ráða miklu um baráttuna í Austurdeildinni í vor NordicPhotos/GettyImages

Bakvörðurinn snjalli Dwyane Wade hjá Miami Heat hefur gefið það í skyn að hann muni fara í endurhæfingu og reyna að snúa aftur í síðustu viku deildarkeppninnar í NBA. Wade fór úr axlarlið á dögunum og hefur enn ekki gefið endanlegt svar um það hvort hann ætli í uppskurð eða endurhæfingu.

Ljóst er að Wade þarf að fara í uppskurð vegna meiðslanna, en til greina kemur að fara í stífa endurhæfingu til að styrkja öxlina og þá gæti hann tekið áhættuna og verið með í úrslitakeppninni. Ef hann færi hinsvegar beint í uppskurð - eins og venja er með slík meiðsli - þýddi það að hann gæti ekki spilað meira með liði sínu á leiktíðinni.

"Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að koma aftur með laskaða öxl. Ef ég ákveða að koma til baka, verður það af því ég er tilbúinn að taka þessa áhættu og af því ég tel að ég geti spilað. Það er alltaf þetta "hvað ef" í lífinu en ég veit að allt hefur sinn tilgang í lífinu og nú á ég bara eftir að sjá hver ástæðan var fyrir þessu óhappi," sagði Wade stóískur í samtali við Sun-Sentinel í dag. Búist er við því að Wade gefi endanlegt svar um framhaldið annað kvöld.

Meistarar Miami eru sem stendur aðeins í 9. sæti Austurdeildarinnar og því ekki inni í myndinni í úrslitakeppninni sem stendur, því aðeins 8 efstu liðin komast þangað. Liðið hefur verið í endalausum vandræðum með meiðsli í vetur og hefur unnið 27 leiki og tapað 29. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×