Körfubolti

Glæsilegt met hjá Dallas

Dallas er á sögulegri sigurgöngu í NBA í vetur og hér keyrir Dirk Nowitzki að körfu Atlanta í nótt
Dallas er á sögulegri sigurgöngu í NBA í vetur og hér keyrir Dirk Nowitzki að körfu Atlanta í nótt NordicPhotos/GettyImages

Sjóðheitt lið Dallas Mavericks varð í nótt fyrsta liðið í sögu NBA deildarinnar til að ná þremur 12 leikja sigurgöngum á einu og sama keppnistímabilinu þegar það valtaði yfir Atlanta 110-87. Þetta var jafnframt 20. heimasigur Dallas í röð og hefur liðið nú unnið 47 af síðustu 52 leikjum sínum eftir að það tapaði fyrstu fjórum leikjunum í haust.

Sigur Dallas á Atlanta var aldrei í hættu í nótt og vann liðið auðveldan sigur þrátt fyrir að missa Josh Howard af velli vegna ökklameiðsla. Dirk Nowitzki fór fyrir sínum mönnum að vanda með 27 stigum, Jason Terry skoraði 21, Josh Howard 20 og Jerry Stackhouse 19. Joe Johnson skoraði 29 stig fyrir Atlanta og Zaza Pachulia skoraði 24 stig.

San Antonio burstaði Toronto 107-91 þar sem Tony Parker skoraði 27 stig og gaf 9 stoðsendingar og Tim Duncan skoraði 24 stig og hirti 14 fráköst fyrir San Antonio, sem vann sjötta leikinn í röð. Andrea Bargnani skoraði 17 fyrir Kanadaliðið.

New York skellti Miami 99-93 þar sem Eddy Curry skoraði 28 stig og hirti 11 fráköst fyrir New York en Jason Kapono skoraði 24 stig fyrir Miami. Shaquille O´Neal skoraði 20 stig fyrir Miami og fór þar með yfir 25.000 stiga múrinn á ferlinum.

LA Lakers vann góðan útisigur á meiðslum hrjáðu liði Utah 102-94 þar sem Kobe Bryant skoraði 21 af 35 stigum sínum á vítalínunni. Leikurinn var sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni, en náði aldrei að verða skemmtilegur - ekki síst fyrir tilstilli arfaslakra dómara sem stálu senunni með glórulausu flauti sínu.

Philadelphia lagði Sacramento 89-82, Denver lagði Memphis 111-107, Orlando vann óvæntan útisigur á Chicago 94-87 og Boston vann enn óvæntari útisigur á Houston, sem var án Tracy McGrady. Seattle burstaði Portland 97-73.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×