Körfubolti

Góð sæti á stjörnuleiknum kosta tæpar tvær milljónir

Kobe Bryant, Dwyane Wade og LeBron James verða í eldlínunni í beinni á Sýn í kvöld
Kobe Bryant, Dwyane Wade og LeBron James verða í eldlínunni í beinni á Sýn í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Það er ekki fyrir meðalmanninn að fá gott sæti á stjörnuleiknum í NBA sem fram fer í Las Vegas í nótt því miðaverð fyrir hvert sæti í fyrstu 5-10 röðunum í kring um völlinn er hátt í tvær milljónir íslenskra króna. Stjörnuleikurinn verður sýndur beint á Sýn eftir miðnætti í kvöld, en hér er um að ræða stærsta íþróttaviðburð í sögu borgarinnar.

Gert er ráð fyrir því að um 25.000 gestir verði í Las Vegas yfir stjörnuhelgina, en auk stjörnuleiksins sjálfs verður þar stór tískuráðstefna og nokkur hátíðarhöld vegna kínversku áramótanna. Sætin í kring um völlinn á stjörnuleiknum í kvöld munu ganga á um 1,8 milljónir króna samkvæmt upplýsingum frá einum af skipuleggjendum leiksins.

Skipuleggjendur stjörnuhátíðarinnar gera ráð fyrir að um 200 millljónir króna muni koma inn í kassann yfir helgina fyrir utan miðasölu, en þess má geta að þar eru með öllu ótaldar tekjur spilavítanna ef milljarðamæringarnir í NBA fara út að spila milli þess sem þeir keppa á körfuboltavellinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×