Körfubolti

Pippen vill snúa aftur í NBA

NordicPhotos/GettyImages

Hinn 41 árs gamli Scottie Pippen hefur nú lýst því yfir að hann vilji snúa aftur í NBA deildina. Pippen spilaði síðast með liði Chicago Bulls fyrir rúmum tveimur árum en er fyrir nokkru búinn að leggja skóna á hilluna. Pippen er ekki í vafa um að hann geti hjálpað liði sem er í baráttu um meistaratitilinn.

"Ég er búinn að vera að æfa vel í vetur og ég hefði gaman af því að reyna fyrir mér hjá liði sem er í baráttu um titilinn, en önnur lið koma ekki til greina. Ég veit að ég hef það sem til þarf og stjörnuhelgin er fínn tími til að koma því út að ég sé tilbúinn ef kallið kemur," sagði Pippen, sem talinn er vilja reyna fyrir sér hjá liðum eins og San Antonio eða meisturum Miami.

Dwyane Wade, besti maður úrslitakeppninnar í fyrra, sagði að það yrði skrítið en frábært að fá mann eins go Pippen til Miami. "Ég er þegar með menn með mér í liðinu á borð við Shaquille O´Neal og Gary Payton sem ég var alltaf að nota þegar ég var að leika mér í tölvuleikjum sem gutti - svo það væri sannarlega frábær upplifun að fá einn slíkan enn í Pippen," sagði Wade hrifinn.

Scottie Pippen vann á sínum tíma sex meistaratitla með Chicago Bulls en spilaði þar á eftir með Houston og Portland, áður en hann lauk ferlinum með gamla Bulls-liðinu sínu. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×