Körfubolti

Sjöundi sigur Detroit í röð

NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og unnust þeir allir á heimavelli. Detroit vann sjöunda sigurinn í röð með því að leggja LA Clippers, Denver skellti Golden State og þá vann Utah fimmta sigurinn í röð þegar það burstaði Atlanta.

Detroit vann nokkuð auðveldan sigur á Clippers 92-74 þar sem Chris Webber skoraði 19 stig og hirti 9 fráköst fyrir Detroit, sem hefur unnið Clippers í átta síðustu leikjum liðanna. Cuttino Mobley skoraði 17 stig fyrir Clippers sem kláraði lengsta keppnisferðalag sitt á tímabilinu með því að tapa 5 af 7 leikjum. Liðið var án Elton Brand í nótt, en hann er meiddur.

Denver vann nokkuð sannfærandi sigur á Golden State 123-111 þar sem Carmelo Anthony og J.R. Smith skoruðu 28 stig hvor fyrir Denver. Anthony spilaði lítið í fjórða leikhlutanum og átti raunar við smá meiðsli að stríða á læri sem hann varð fyrir í fjórða leikhlutanum. Al Harrington skoraði 24 stig fyrir Golden State og Kelenna Azubuike skoraði 23 stig, en liðið var enn og aftur án leikstjórnandans Baron Davis. Í gær tilkynntu forráðamenn Golden State svo að Davis þyrfti í lítinn hnéuppskurð og verður hann því frá keppni um óákveðinn tíma.

Loks vann Utah Jazz fimmta leikinn í röð þegar liðið burstaði Atlanta Hawks 102-76 á heimavelli. Atlanta hafði unnið fimm útileiki í röð fyrir leikinn, en átti aldrei möguleika eftir það nýtti aðeins 4 af 17 skotum sínum í fyrsta leikhlutanum. Mehmet Okur skoraði 19 stig fyrir Utah en spilaði ekkert í fjórða leikhlutanum, Derek Fisher skoraði 14 stig og Paul Millsap skoraði 13 stig og hirti 9 fráköst á aðeins 17 mínútum. Marvin Williams skoraði 15 stig fyrir Atlanta og Joe Johnson 14.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×