Erlent

Ætla að finna plánetur sem líkjast Jörðinni

Mynd/ESA
Vísindamenn Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) hyggjast finna lífvænlegar plánetur sem líkjast jörðinni. Til þess ætla þeir að nota öflugasta geimsjónauka sem smíðaður hefur verið, Darwin-sjónaukann. Áætlað er að sjónaukanum verði skotið upp árið 2020. Darwin sjónaukinn er í raun þrír sjónaukar sem fara um sporbaug í fylkingu og myndir úr þeim eru svo sameinaðar í eina stóra mynd. Sjónaukinn mun horfa á innrautt ljós í órafjarlægð og hafa það að markmiði að finna sólkerfi sem líkjast sólkerfinu okkar sem mest og þá plánetur sem gætu líkst Jörðinni. Þetta getur sjónaukinn greint með nokkurri nákvæmni út frá magni innrauðar geislunar sem plánetur gefa frá sér en innrauð geislun getur gefið til kynna samsetningu lofthjúps pláneta. NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna er með svipað verkefni í gangi sem nefnist Terrestrial Planet Finder (TPF). Vegna tæknilegra hindrana sem enn eru í vegi bæði Darwin-verkefnisins og TPF-verkenfnis NASA er nú talið ólíklegt að báðir sjónaukarnir verði byggðir. Líklegra þykir að verkefnin verði sameinuð. Þá mun sjónaukinn einnig geta gefið mun nákvæmari myndir af plánetum í órafjarlægð vegna þess einfaldlega að upplausn myndanna verður margföld á við það sem hingað til hefur verið hægt. Vefsíða Darwin-verkefnis ESAVefsíða TPF-verkefnis NASA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×