Innlent

Varnarliðið skuldar íslenskum fyrirtækjum

Íslensk fyrirtæki kvarta undan því að hafa ekki fengið greitt fyrir vörur hjá Varnarliðinu, um eða yfir hálfu ári eftir að herinn fékk vörurnar. Reikningarnir eru ýmist sendir til höfuðstöðva hersins á Ítalíu eða í Bretlandi.

Nú eru um fjórir mánuðir frá því bandaríksi herinn hvarf endanlega frá herstöðinni í Keflavík. Eitt af síðustu verkunum var að eyða ýmsum varningi eins og bjórbirgðum og fleiru sem herinn flutti ekki með sér. Herinn átti í miklum viðskiptum við fjölmörg fyrirtæki í landinu en nú hefur komið í ljós að hann hefur skilið eftir sig ógreidda reikninga.

Þannig hafa starfsmenn nokkurra fyrirtækja haft samband við fréttastofuna og kvartað undan því að hafa ekki fengið vörur sínar greiddar. Um er að ræða upphæðir allt frá nokkur hundruð þúsund upp í tæpa milljón, hjá þeim sem hafa sett sig í samband við Stöð tvö. Þeir kvarta líka undan því að litla aðstoð sé að fá frá sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík.

Þau svör fengust frá Sally Hodgson á upplýsingaskrifstofu sendiráðsins í dag, að þar ynni starfsmaður sem hefði það verkefni að sjá til þess að reikningar væru greiddir. Reikningarnir væru sendir áfram til höfustöðva flotans í Napolí á Ítalíu eða herstöðvar flughersins í Lakenheath í Bretlandi til staðfestingar og eftir staðfestingu væru þeir greiddir. Hogson segir að ef fyrirtæki eigi enn eftir að fá greitt fyrir vörur sínar, sé sendiráðið reiðubúið að kanna mál þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×