Körfubolti

Nash og Bosh leikmenn mánaðarins í NBA

Chris Bosh fór á kostum í janúar
Chris Bosh fór á kostum í janúar NordicPhotos/GettyImages

Steve Nash hjá Phoenix Suns og Chris Bosh hjá Toronto Raptors voru í kvöld útnefndir leikmenn janúarmánaðar í NBA deildinni, en þeir verða báðir í byrjunarliðunum í Stjörnuleiknum sem fram fer í Las Vegas síðar í þessum mánuði.

Bosh var kjörinn leikmaður mánaðarins í Austurdeildinni eftir að hann leiddi Kanadalið Toronto til sigurs í 10 af 15 leikjum í janúar. Bosh skoraði 25,4 stig og hirti 9,1 frákast að meðaltali í leik og toppaði ef til vill mánuðinn með því að hitta úr 15 skotum í röð í leik í fyrrinótt.

Steve Nash hefur á sama hátt farið á kostum með sjóðheitu liði Phoenix og var fyrir vikið kosinn leikmaður mánaðarins í Vesturdeildinni. Nash skoraði 18 stig og gaf 13 stoðsendingar að meðaltali í leik í mánuðinum, þar sem Phoenix vann 15 af 16 leikjum sínum og jafnaði NBA metið yfir bestan árangur allra tíma í janúarmánuði.

Þess má geta að 208 stoðsendingar Steve Nash í janúar eru flestar stoðsendingar eins manns á mánuði í NBA síðan árið 1995 þegar John Stockton gaf jafn margar stoðsendingar í marsmánuði það árið. Rúsínan í pylsuendanum hjá Nash var leikurinn gegn Cleveland þann 11. janúar sem sýndur var á Sýn, en hann gaf 21 stoðsendingu í leiknum þó hann fengi að hvíla lengst af í fjórða leikhlutanum þegar sigur Phoenix var nánast í höfn. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×