Golf

Sjöundi sigurinn í röð hjá Tiger Woods á PGA

Tiger Woods fagnar sigrinum á Buick Invitational í gær með konu sinni, hinni sænsku Elínu.
Tiger Woods fagnar sigrinum á Buick Invitational í gær með konu sinni, hinni sænsku Elínu. MYND/AP

Tiger Woods vann í gær sitt sjöunda mót í röð á bandarísku PGA-mótaröðinni þegar hann sigraði á Buick Invitational mótinu í San Diego í gær. Þetta er næstlengsta sigurganga kylfings í sögu PGA en Byron Nelson á metið, 11 sigra í röð.

Woods var tveimur höggum á eftir efsta manni fyrir síðasta hring mótsins en hann lék við hvurn sinn fingur í gær og fór lokahringinn á 68 höggum. Lauk hann keppni á 15 höggum undir pari, tveimur færra en Charles Howell III og þremur höggum færra en Brandt Snedeker sem var efstur fyrir lokahringinn.

Tiger Woods hefur verið í geysilega góðu formi síðastliðið hálft ár en frá því í júlí í fyrra hefur hann ekki lent neðar en í öðru sæti á móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×