Körfubolti

Chicago stöðvaði sigurgöngu Dallas

Chicago batt enda á sigurgöngu Dallas á heimavelli sínum í nótt
Chicago batt enda á sigurgöngu Dallas á heimavelli sínum í nótt NordicPhotos/GettyImages

Tveir leikir fóru fram í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Chicago Bulls stöðvaði átta leikja sigurgöngu Dallas Mavericks og þá tapaði New Jersey þriðja leiknum í röð með aðeins einu stigi þegar liðið lá fyrir LA Clippers.

Chicago lagði Dallas 96-85. Ben Gordon skoraði 30 stig fyrir Chicago og Luol Deng 21, en Dirk Nowitzki skoraði 28 stig og hirti 11 fráköst fyrir Dallas. Chicago hafði á tímabili 17 stiga forskot í leiknum, en Dallas komst aftur inn í leikinn í fjórða leikhlutanum og náði að gera leikinn spennandi á ný. Það var svo hin ólíklegasta hetja sem gerði út um leikinn, en PJ Brown skoraði þá 6 stig á lokasprettinum og tryggði sigurinn. Brown spilaði líka góða vörn á Dirk Nowitzki.

Leikmenn New Jersey verða eflaust lengi að gleyma keppnisferðalagi sínu um Kaliforníu, en þar hefur liðið nú tapað þremur leikjum í röð - öllum með aðeins einu stigi. New Jersey tapaði 102-101 fyrir LA Clippers í nótt, þar sem Cuttino Mobley skoraði sigurkörfuna með þriggja stiga skoti þegar rúm hálf sekúnda lifði leiks. Elton Brand var atkvæðamestur í liði Clippers með 18 stig og 8 fráköst, en Vince Carter skoraði 33 stig fyrir New Jersey.  

Leikur Philadelphia og Cleveland verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn í kvöld klukkan 12 á miðnætti, þar sem Svali Björgvinsson og Friðrik Ingi Rúnarsson lýsa með tilþrifum. 

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×