Körfubolti

Góð sárabót fyrir Dallas

Stackhouse var heitur í fjórða leikhlutanum í kvöld
Stackhouse var heitur í fjórða leikhlutanum í kvöld AFP
Einum leik er lokið í NBA í dag en hér var á ferðinni einvígi liðanna sem börðust um meistaratitilinn í fyrra. Þetta var fyrsti leikur liðanna síðan Miami tryggði sér titilinn í sumar, en Dallas kom fram hefndum með góðum sigri á útivelli 99-93 þar sem Jerry Stackhouse var hetja gestanna og skoraði 16 stig í fjórða leikhlutanum.

Dallas hafði þægilegt forskot lengst af í leiknum, en Dwyane Wade fór fyrir liði heimamanna þegar það gerði áhlaup í fjórða leikhluta og náði að jafna leikinn. Jerry Stackhouse skoraði 16 af 23 stigum sínum í fjórða leikhlutanum, Dirk Nowitzki skoraði 22 stig og Josh Howard 25.

Wade var stigahæstur í liði heimamanna með 31 stig, en klikkaði á þristi þegar 5,8 sekúndur voru eftir af leiknum sem hefði geta jafnað fyrir Miami. Liðið er enn án Shaquille O´Neal sem hefur misst úr 34 leiki í vetur, en hann er nú óðum að braggast og stefnir á að spila á ný fljótlega.

Miami komst aldrei yfir í leiknum og Dallas hefur nú unnið 29 leiki og tapað aðeins einum þegar það heldur andstæðingum sínum undir 100 stigum.

Leikur kvöldsins á NBA TV verður viðureign Phoenix og Minnesota þar sem gestirnir verða án Kevin Garnett og Ricky Davis, sem báðir verða í leikbanni. Það má því mikið vera ef Phoenix vinnur ekki 13. leik sinn í röð, en liðið hefur unnið 28 af síðustu 30 leikjum sínum í deildinni og hefur verið í sérflokki ásamt Dallas á fyrri helmingi leiktíðar.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×