Körfubolti

Indiana og Golden State stokka upp

Vandræðagemlingurinn Stephen Jackson er farinn frá Indiana og anda  Larry Bird og félagar eflaust léttar að vera lausir við hann
Vandræðagemlingurinn Stephen Jackson er farinn frá Indiana og anda Larry Bird og félagar eflaust léttar að vera lausir við hann NordicPhotos/GettyImages

Lið Indiana Pacers og Golden State Warriors gerðu með sér mikil og stór leikmannaskipti í NBA deildinni í gærkvöldi, en þessi viðskipti liðanna komu sérfræðingum í deildinni mjög á óvart. Svo virðist sem hvorugt liðið komi áberandi betur út úr skiptunum, en átta leikmenn skiptu um heimilisfang í viðskiptunum.

Indiana sendi frá sér þá Stephen Jackson, Al Harrington, Sarunas Jasikevicius og Josh Powell og fékk í staðinn þá Troy Murphy, Mike Dunleavy jr, Ike Diogu og Keith McLeod.

Það sem ef til vill stendur uppúr í þessum viðskiptum er að Indiana losar sig við vandræðagemlinginn Stephen Jackson sem hefur verið afar iðinn við að koma sér í vandræði innan sem utan vallar hjá liðinu undanfarin ár - nú síðast í haust þegar lenti í harðri rimmu fyrir utan súlustað í Indianapolis.

Golden State er sömuleiðis að losa sig við leikmenn sem Don Nelson þjálfari gat ekki notað, en eiga eflaust eftir að henta liði Indiana mun betur. Liðin spila gjörólíkan leikstíl, en þó of snemmt sé að spá fyrir um útkomu þessara skipta, eru körfuboltaspekingar vestanhafs hóflega bjartsýnir á að þessi ráðstöfun eigi eftir að styrkja liðin sérstaklega.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×