Erlent

SÞ: Tæplega 35 þúsund almennir borgarar fallið í Írak 2006

Sameinuðu þjóðirnar fullyrða að tæplega 35 þúsund almennir borgarar hafi fallið í átökum í Írak í fyrra. Það eru þrefalt fleiri en innanríkisráðuneytið íraska segir hafa fallið. Nærri því 100 manns hafa týnt lífi og rúmlega 200 særst í sprengjuárásum í og við Bagdad í dag.

Á blaðamannafundi í dag sagði Gianni Magazzeni, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Írak að ódæði kostuðu almenna borgara þar lífið á hverjum degi. Magazzeni bendir á að nokkuð færri hafi týnt lífi í nóvember og desember í fyrra samanborið við september og október.

Hann segir þó ekkert benda til þess að það takist að stemma stigu við ofbeldinu. Í fyrra hafi 34.452 almennir borgarar týnt lífi í átökum og 36.685 særst. Þetta er nærri því þrisvar sinnum meira mannfall en lesa má út úr tölum frá íraska innanríkisráðuneytinu.

Írösk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um þessar niðurstöður en ráðamenn í Írak hafa áður dregið í efa tölur um mannfall frá alþjóðlegum samtökum og stofnunum.

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er einnig greint frá því að rúmlega 30 þúsund manns hafi verið í haldi yfirvalda í Írak í desember, þar af tæplega 15 þúsund fangar fjölþjóðlega herliðsins sem Bandaríkjamenn fara fyrir.

Bandaríkjaher og írösk stjórnvöld búa sig nú undir áhlaup gegn andspyrnumönnum í Írak. Ætlunin er að stöðva átök trúarbrota. Ætla má að það reynist þrautin þyngri og voru fjölmargar sprengjuárásir gerðar í Írak í dag.

Nærri því 100 manns hafa týnt lífi í sprengju- og skotárásum í og við Bagdad í dag. Mannskæðasta árásin var gerð við háskóla í austurhluta höfuðborgarinnar. 60 létu þar lífið og rúmlega 100 særðust. Meðal látinna eru fjölmargir námsmenn sem voru á leið heim úr skólanum þegar tvær sprengjur sprungu við innganga hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×