Körfubolti

Treyja Kobe Bryant orðin vinsælust á ný

Kobe Bryant og Dwyane Wade eiga söluhæstu treyjurnar í verslun NBA deildarinnar í New York og á netinu.
Kobe Bryant og Dwyane Wade eiga söluhæstu treyjurnar í verslun NBA deildarinnar í New York og á netinu. NordicPhotos/GettyImages

Svo virðist sem vinsældir körfuboltamannsins Kobe Bryant séu aftur að ná hámarki, en samkvæmt nýjustu tölum frá Bandaríkjunum á hann nú söluhæstu keppnistreyjuna á markaðnum í dag. Bryant var á toppnum árið 2003, en Dwyane Wade hjá Miami hirti toppsætið árið 2005 og hafði haldið því síðan. Treyja LeBron James er í þriðja sætinu og liðsfélagarnir Allen Iverson og Carmelo Anthony hjá Denver eru í fjórða og fimmta sæti.

Vinsældir Bryant hafa nú hægt og bítandi verið á uppleið eftir að hann varð einn óvinsælasti íþróttamaður Bandaríkjanna í kjölfar þess að hann var ákærður fyrir nauðgun fyrir nokkrum árum. Þá var Bryant talin ein helsta orsök þess að Shaquille O´Neal fór frá LA Lakers og vinsældir hans hröpuðu.

Það spilar væntanlega stórt inn í sölutölur á treyjum að þessu sinni, að Kobe Bryant skipti um númer í sumar og er núna númer 24 í stað númer 8 eins og áður og þessi skipti hafa væntanlega orðið til þess að fjöldi aðdáenda hans keyptu sér aðra treyju með nafni hans. Sömu sögu er að segja af Allen Iverson, en hann var aðeins í sjöunda sæti yfir söluhæstu treyjuna áður en hann fór til Denver fyrir nokkrum vikum, en er nú kominn í það fjórða.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×