Körfubolti

Houston lagði Chicago

Tracy McGrady hefur farið mikinn í liði Houston síðan hann sneri aftur úr meiðslum og er stigahæsti leikmaður deildarinnar síðan um áramót
Tracy McGrady hefur farið mikinn í liði Houston síðan hann sneri aftur úr meiðslum og er stigahæsti leikmaður deildarinnar síðan um áramót NordicPhotos/GettyImages

Houston vann í nótt góðan 84-77 útisigur á Chicago í NBA deildinni og hefur liðið nú unnið 5 af 7 leikjum sínum síðan Yao Ming meiddist í síðasta mánuði. Tracy McGrady skoraði 31 stig fyrir Houston og var það sjötti leikurinn í röð sem hann skorar 31 stig eða meira. Ben Gordon skoraði 24 stig fyrir Chicago.

Sam Cassell sneri aftur úr meiðslum í lið LA Clippers og var maðurinn á bak við sigur liðsins á New Orleans á útivelli 100-90. Cassell skoraði 31 stig fyrir Clippers en Desmond Mason skoraði 28 stig fyrir New Orleans í sjónvarpsleiknum á NBA TV.

Loks stöðvaði Denver fimm leikja taphrinu með heimasigri á Milwaukee 104-92, en bæði þessi lið voru án lykilmanna í leiknum. Earl Boykins skoraði 26 stig og gaf 11 stoðsendingar fyrir Denver en Ruben Patterson var bestur hjá Milwaukee með 29 stig og 12 fráköst.

Í kvöld verður leikur Memphis Grizzlies og LA Lakers sýndur beint á NBA TV og hefst hann klukkan eitt eftir miðnætti. Þá er rétt að minna á stórleik Phoenix og Cleveland sem sýndur verður á NBA TV klukkan 3 aðfaranótt föstudagsins - en sá leikur verður síðan sýndur á sjónvarpsstöðinni Sýn á miðnætti á föstudagskvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×