Skoðun

Óorði komið á útrásina

Dagur B. Eggertsson skrifar
Það er með ólíkindum að borgarstjóra og meirihlutanum í Reykjavík hafi á örfáum dögum tekist að gera eitt mesta sóknarfæri í atvinnulífi Íslendinga tortryggilegt í augum almennings. Það er grafalvarleg um leið og það er fyllilega verðskuldað og sorglegt. Æ fleiri spyrja sig að því hvort borgarstjóra og Framsóknarflokknum sé fyrirmunað að ráða mikilvægum úrlausnarefnum til lykta í samræmi við nútímalega stjórnunarhætti og hagsmuni almennings.

Fulltrúar meirihlutans Björn Ingi Hrafnsson og Haukur Leósson hafa augljóslega viljað leika stóra bissness-karla í stjórn Reykjavik Energy Invest. Þar úthlutuðu þeir sér sæti án þess að veita fulltrúum minnihlutans tækifæri til að hafa eftirlit með störfum sínum. Það nýttu þeir sér til að þrefalda eigin stjórnarlaun og gera fordæmalausa kaupréttarsamninga sem m.a. ná til kosningastjóra Framsóknarflokksins sem ráðinn var til fyrirtækisins fyrir tveimur vikum. Svo virðist sem dúettinn hafi litið á þetta sem nokkurs konar einkamál sem ætti ekkert erindi í opinbera umræðu, við stjórn Orkuveitu Reykjavíkur eða borgarstjórn Reykjavíkur.

Það er lágmarkskrafa að í opinberu fyrirtæki sé farið vel með eigur almennings og ekki teknar aðrar ákvarðanir en þær sem þola dagsljósið. Til að skapa frið um útrás Orkuveitunnar er fyrsta skrefið að skipta pólitískum fulltrúum út úr stjórn REI. Í staðinn ættu að koma fagstjórnendur með skýra stefnu starfi sínu til grundvallar. Sú stefna á að vera mörkuð af eigendum og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

Borgarstjórn og Orkuveitu Reykjavíkur bíður ærið verkefni við að endurvinna traust almennings. Það þarf að skýra leikreglur, auka gagnsæi og tryggja eðlilega stjórnarhætti í Orkuveitunni, dótturfélögum hennar og samskiptum fyrirtækisins við fulltrúa eigenda. Samfylkingin er tilbúin að taka þátt í því af fullum heilindum að vinda ofan af vitleysunni og koma útrásarstarfi Orkuveitunnar aftur í eðlilegt og heilbrigt horf þannig að allir geti verið stoltir af.

Höfundur er oddviti Samfylkingar í borgarstjórn.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×