Fótbolti

Eiður telur sig eiga góða möguleika

Hræðist ekki samkeppnina í liði Barcelona.
Hræðist ekki samkeppnina í liði Barcelona. Fréttablaðið/Getty

Enskir fjölmiðlar héldu áfram að bendla Eið Smára Guðjohnsen við sölu til West Ham í gær eftir að Íslendingafélagið samþykkti tveggja milljón króna greiðslu frá umboðsmanninum Kia Joorabchian til að losa argentínska framherjann Carlos Tevez undan samningi við félagið. Talið er að Tevez muni ganga formlega til liðs við Manchester United um helgina og sem fyrr er Eiður Smári sagður efstur á óskalista West Ham yfir þá leikmenn sem geta leyst Tevez af.

Í viðtali við El Mundo Deportivo, eitt helsta staðarblaðið í Katalóníu, hélt Eiður áfram að lýsa því yfir að hann hyggist ekki fara frá Barcelona. Hann telur sig enn fremur eiga góða möguleika á að festa sig í sessi hjá Barcelona.

„Þegar Claudio Ranieri tók við Chelsea á sínum tíma sagði hann við mig að ég yrði fjórði framherjinn í goggunarröðinni. Þegar tímabilið var á enda hafði ég spilað fullt af leikjum. Ég ætla ekki að gefast upp hér á Spáni," segir Eiður. „Enginn hjá félaginu, hvorki Txiki Begiristain (yfirmaður knattspyrnumála) né Frank Rikaard hefur sagt mér að þeir vilji ekki hafa mig áfram," bætti íslenski landsliðsfyrirliðinn við.

Spurður um orðróminn þráláta sem segir hann á leið til West Ham sagði Eiður: „Ég hef ekkert heyrt frá West Ham."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×