Erlent

Foreldrar geti fylgst með börnum sínum

Með nýjum gervihnattasímum má fylgjast með staðsetningu vina og fjölskyldumeðlima.
Með nýjum gervihnattasímum má fylgjast með staðsetningu vina og fjölskyldumeðlima.

Með nýjum GPS-farsímum geta foreldrar fylgst með staðsetningu barna sinna. Þetta segir Jón Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri íslenska fyrirtækisins Trackwell. Fyrirtækið hefur þróað eftirlitsforrit frá árinu 1996.

„Upp á síðkastið hefur þessi GPS-tækni orðið vinsæl og nú eru komnir símar sem eru bæði farsímar og GPS-tæki,“ segir Jón Ingi. GPS-tæknin nýtir fjölda gervihnatta á sporbaug um jörðina til að finna staðsetningu þeirra hluta eða fólks sem fylgst er með.



Trackwell hefur hannað hugbúnað sem býður fólki upp á að fylgjast með öðrum með aðstoð farsímans síns. Fyrirtækið hefur selt kerfið til símafyrirtækis í Ástralíu, en að sögn Jóns Inga hefur tæknin ekki náð fótfestu hingað til. Með tilkomu GPS-farsíma verði tæknilegi hlutinn auðveldari.



„Þetta hefur verið rætt hjá aðstandendum Alzheimers-sjúklinga og fólks með Downs-heilkenni. En einhver þarf að borga þetta,“ segir Jón Ingi.

„Við ræddum þetta og mér finnst voða spennandi að skoða þetta,“ segir María Th. Jónsdóttir, formaður Alzheimerfélagsins.



„Ef fólk með Alzheimer getur vanist því að ganga með öryggistæki eru meiri líkur á að það geti haldið því áfram þegar það verður mjög gleymið,“ segir María.



Með forritinu MyBuddy Tracker býður Trackwell upp á að unglingar geti fundið staðsetningu vina sinna og gert þeim þar með auðveldara að hittast og eiga samskipti.



Forritið MyChild Tracker gerir foreldrum kleift að fylgjast með ferðum barnsins. „Þú getur sett inn að klukkan níu eigi barnið þitt að vera komið í skólann. Ef það vantar í skólann færðu send smáskilaboð. Og ef barnið fer úr hverfinu færðu skilaboð.“



Foreldrar þurfa jafnframt að samþykkja ef barn vill leyfa öðrum en þeim að fylgjast með sér. „En ef barn slekkur á kerfinu eru foreldrarnir látnir vita,“ segir Jón Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×