Gagnrýni

Leiðinda öryggi

Steinþór Helgi Arnsteinsson skrifar
Tónlist

Cassadaga

Bright Eyes



Hljómsveitin Bright Eyes, sem reyndar er hálfpartinn eins manns hljómsveit Conors nokkurs Oberst, sló í gegn fyrir tveimur árum með plötunni I’m Wide Awake, It’s Morning. Fólk kepptist við að elska að elska hana en ég hins vegar hataði að hata hana. Platan átti samt sína spretti og er í sjálfu sér ekkert slæm.

Cassadaga á að fylgja eftir vinsældum fyrrnefndrar plötu og sú verður líklegast raunin enda leiðirnar sem farnar eru á Cassadaga svo skotheldar að jafnvel Sena myndi spyrja sig hvort ekki hefði mátt taka örlítið meiri áhættu. Fengnir eru áhugaverðir gestir, að því er virðist til þess eins að fá tónlistarspekinga til þess að segja: „Nú, eru þau þarna?“ M. Ward plokkar gítar í nokkrum lögum án þess að hægt sé að gefa því gaum, hin stórkostlega Janet Weiss, trommari Sleater-Kinney, skilar af sér ómerkilegri frammistöðu, nema kannski í Hot Knives, og Gillian Welch syngur bakraddir í einu lagi, mjög óeftir­minnilega. John McEntire úr Tortoise nær kannski helst að skila sínu hlutverki svo vel sé á seinni hluta plötunnar og er greinilega með spennandi pælingar. Vona samt að hann hafi ekki stungið upp á sjamana-gaulinu í lokin á Coat Check Dream Song, þvílík hörmung! Eins og fyrri hluti lagsins er nú góður.

Eitt af aðaltrompum Conors, textarnir, er heldur ekki upp á marga fiska. „Some things you lose / You don’t get back“, nú?. „She said the best country singers die in the back of classic cars / So if I ever got too hungry for a suitcase or guitar/To think of them all alone in the dark“, ha? Og „Everything it must belong somewhere / A train off in the distance, bicycle chained to the stairs“, smá klisjulykt?.

Platan er reyndar fagmannlega gerð, er sjaldan pirrandi, sumir textar ágætlega samdir, umslagið magnað og örfá lög eru mjög flott. No One Would Riot for Less sýnir kannski best hvers Conor er megnugur. En ef ég á að vera hreinskilinn þá er platan til lengdar einfaldlega leiðinleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×