Viðskipti innlent

Framleiða undraefni úr þorski

Jón Bragi Bjarnason. Líftæknifyrirtækið Zymetech hefur búið til krem og lyf úr ensímum í þorski. Lyfið hefur marga eiginleika en nýjustu rannsóknir benda til að það geti læknað fuglaflensu.
Jón Bragi Bjarnason. Líftæknifyrirtækið Zymetech hefur búið til krem og lyf úr ensímum í þorski. Lyfið hefur marga eiginleika en nýjustu rannsóknir benda til að það geti læknað fuglaflensu. MYND/GVA

Líftæknifyrirtækið Zymetech hefur þróað krem og snyrtivörur úr ensímum þorska. Kremið hefur nýst mjög vel við bólgum hvers konar og nú er verið að leita samninga við lyfjaframleiðendur um framleiðslu á ensíminu í lyfjum auk þess sem horft er til lækningamáttar þess en talið er að það geti læknað flensu af hvaða tagi sem er.

Jón Bragi Bjarnason, forstjóri Zymetech, segir um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi sé það tæknin sem felst í því að vinna ensímið úr þorskinum og hitt sé vinnslan á ensíminu í snyrtivörur og lyf.

Zymetech hefur náð mjög langt með tækni sinni, sem er einkaleyfisvarin í 29 löndum. Þá hafa snyrtivörur þess verið seld víða um heim, þar af undir fjórum vörumerkjum í Frakklandi, að sögn Jóns Braga.

„Það hefur komið í ljós að þorskaensímið hefur áhrif á bólgusjúkdóma, húðsjúkdóma og veiru- og bakteríusýkingar. Það vakti til dæmis nokkra athygli í janúar að ensímið dræpi fuglaflensuveiruna,“ segir Jón og bendir á niðurstöður rannsóknar þessa efnis sem gerð var í Lundúnum í Bretlandi.

Um þessar mundir er verið að kanna virkni ensímsins á flensu í mönnum. „Næsta skrefið á eftir þessu er að athuga hvernig þorskaensímið virkar á kvefveiruna,“ segir Jón og bætir við að í bígerð sé að búa til hálstöflur og nefúða með lyfinu úr þorskaensímunum.

Á fjárfestaþinginu á morgun mun fulltrúi Zymetech kynna áætlun fyrirtækisins um lyfjaþróun og prófanir á að minnsta kosti einu lyfi fyrir yfirborðslæga sjúkdæma.

„Við erum í raun búin að þróa lyfin en nú eigum við eftir að þróa klínísku rannsóknirnar sem sanna virkni þeirra. Þegar það er komið þá getum við farið með það til lyfjafyrirtækja og boðið þeim í dansinn,“ segir Jón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×