Bíó og sjónvarp

Skuggahliðar Los Angeles

Josh Hartnett og aaron Eckhart reyna að hafa uppi á morðingja ungrar kvikmyndaleikkonu í The Black Dahlia.
Josh Hartnett og aaron Eckhart reyna að hafa uppi á morðingja ungrar kvikmyndaleikkonu í The Black Dahlia.

Bandaríski glæpasagnahöfundurinn James Ellroy hefur haldið merkjum gömlu meistara harðsoðnu hefðarinnar á lofti með glæsibrag í verkum sínum þar sem drungalegur „film noir“ andi svífur yfir vötnum.

Curtis Hanson kvikmyndaði glæpasögu hans, L.A. Confidential með miklum glæsibrag árið 1997 og nú hefur Brian De Palma afgreitt aðra bók Ellroys, The Black Dahlia, og afraksturinn verður frumsýndur á Íslandi á morgun.

Ellroy byggði þessa sögu sína á sönnu sakamáli en spann utan um það sögu um spillingu, ást, þráhyggju, græðgi og hnignun mannlegra gilda. Árið 1947 fannst vægast sagt illa útleikið lík hinnar 22 ára gömlu Betty Short í Los Angeles. Betty var smástirni í Hollywood og hafði háleit markmið um að sigra heiminn á hvíta tjaldinu áður en sjúkur morðingi batt enda á þá drauma hennar.

Morðgátan er enn óleyst en hefur verið fólki og þá ekki síst blaðamönnum, rithöfundum og handritshöfundum endalaus uppspretta vangaveltna og samsæriskenninga.

Fjörutíu árum eftir að glæpurinn var framinn byggði Ellroy svo metsölureyfara sinn á málinu, ekki síst í þeirri von að með bókinni gæti hann skrifað sig frá skuggum eigin fortíðar en móðir hans var myrt árið 1958.

Í The Black Dahlia reyna tveir ungir lögreglumenn og fyrrverandi hnefaleikarar, Lee Blanchard (Aaron Eckhart) og Bucky Bleichert (Josh Hartnett) að hafa hendur í hári morðingjans. Við rannsóknina flækjast þeir í vef lyga og spillingar og málið gengur nærri þeim báðum og hefur áhrif á einkalíf þeirra.

Blanchard fær málið á heilann og óeðlilegur áhugi hans á Betty ógnar sambandi hans við hina fögru Kay (Scarlett Johansson) á meðan Bleichert fellur fyrir Madeline Linscott (Hillary Swank) sem tengist fórnarlambinu á óheppilegan hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×