Bíó og sjónvarp

Bridget verður frú Potter

Renee Zellweger. Bandaríska leikkonan fer með hlutverk Beatrix Potter í kvikmyndinni Miss Potter.
Renee Zellweger. Bandaríska leikkonan fer með hlutverk Beatrix Potter í kvikmyndinni Miss Potter. MYND/Getty

Reneé Zellweger leikur breska konu í kvikmyndinni Miss Potter sem er væntanleg í bíó. Zellweger lék einnig breska konu í Bridget Jones"s Diary og virðist vera orðin sérfræðingur í þess háttar hlutverkum.

Hin bandaríska Zellweger vakti mikla athygli fyrir nokkrum árum þegar hún var ráðin til að leika hina einhleypu Bridget Jones í mynd sem var gerð eftir metsölubók breska rithöfundarins Helen Fielding. Zellweger lærði að tala með enskum hreim til að eiga möguleika á að hreppa hlutverkið og á endanum bar hún sigurorð af mörgum þekktum breskum leikkonum.

Leikur barnabókahöfund

Núna leikur hún enska rithöfundinn Beatrix Potter í myndinni Miss Potter, en barnabækur Potter frá því snemma á síðustu öld eru enn þá afar vinsælar í Bretlandi. Á meðal þeirra sem leika einnig í myndinni eru Emily Watson og Ewan McGregor.

Meiri áhætta en með Bridget

Zellweger, sem hefur þegar fengið tilnefningu til Golden Globe-verðlaunanna fyrir hlutverkið, segir að væntingarnar við nýju myndinni séu öðruvísi en fyrir Bridget Jones"s-myndirnar tvær. „Ég held að meginmunurinn sé sá að núna er enn meiri hætta á að ég valdi fólki vonbrigðum. Helen Fielding bjó vissulega til persónu sem var vinsæl í Bretlandi en Beatrix er mun sterkari hluti af breskri bókmenntasögu," sagði Zellweger í viðtali við Reuters.

Hreimur og aukakíló

Zellweger var umsetin af breskum fjölmiðlum eftir að hún tók að sér hlutverk Bridget Jones. Mikið var fjallað um enska hreiminn hennar og aukakílóin sem hún þurfti að bæta á sig fyrir hlutverkið. „Það er alltaf leiðinlegt að heyra svona umfjöllun vegna þess að þetta endurspeglar það hvernig fólk metur hlutina," sagði hún. „Það er svona yfirborðsmennska sem ætti ekki að vera í sviðsljósinu. Með þessu eru röng skilaboð send út á meðal fólks."

Elskar breskan húmor
Zellweger sló rækilega í gegn í hlutverki sjónvarpskonunnar Bridget Jones.
Zellweger segist engu að síður hafa skemmt sér vel við gerð myndanna og er mjög hrifin af bresku þjóðlífi. „Ég elska breskan húmor og það hvernig fólk talar saman. Þegar ég var fjögurra ára heyrði ég að Paul McCartney væri frá Englandi og þá vissi ég að ég ætti eftir að koma hingað. Góðir hlutir koma frá Englandi."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×