Erlent

Yfirvöld í Basra slíta samstarfi við breska herinn

Íraskur maður leitar í gegnum rústir lögreglustöðvarinnar sem Bretar sprengdu í loft upp.
Íraskur maður leitar í gegnum rústir lögreglustöðvarinnar sem Bretar sprengdu í loft upp. MYND/AP

Yfirvöld í hafnarborginni Basra í Írak segjast hætt að starfa með breska hernum á svæðinu eftir að hermenn leystu upp rannsóknardeild lögreglunnar í borginni, frelsuðu 127 fanga og sprengdu svo í loft upp höfuðstöðvar hennar.

Yfirmaður bresku sveitanna segir að þetta hafi verið gert eftir að áreiðanlegar vísbendingar bárust um að lögreglumenn hygðust þá og þegar taka fangana af lífi. Hann bætti því við að aðgerðirnar hefðu verið með vitund og vilja héraðstjórnarinnar í Basra og írösku ríkisstjórnarinnar.

Róstursamt hefur verið venju samkvæmt í Írak í morgun en í það minnsta fjórtán manns létu lífið í röð bílsprengjuárása í höfuðborginni Bagdad. Þá hafa bandarískir fjölmiðlar bent á það í dag að jafn margir bandarískir hermenn hafa fallið í Írak frá því að innrásin var þar gerð og létu lífið í árásinni á tvíburaturnana í New York 11. september 2001, eða 2.973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×