Erlent

Haniyeh fær ekki að koma heim með peninga

Reiðir Palestínumenn reyna að komst til síns heima.
Reiðir Palestínumenn reyna að komst til síns heima. MYND/AP

Ísraelsk yfirvöld hafa lokað landamærum Gaza að Egyptalandi og þannig komið í veg fyrir að Ismail Haniyeh, forsætisráðherra Palestínumanna, komist heim. Hann mun hafa í fórum sínum margar milljónir bandaríkjadala sem á að nota til að rétta af fjárhag heimastjórnarinnar. Það vilja Ísraelar ekki.

Haniyeh mun hafa notað ferð sína til nærliggjandi landa vel og safnað jafnvirði rúmlega tveggja milljarða íslenskra króna sem nota á til að greiða laun og önnur gjöld sem hafi verið ógreidd vegna þess að skorið hefur verið á fjárstuðning við heimastjórn Palestínumanna frá því Hamas-samtökin náðu völdum.

Eftirlitsmenn á vegum Evrópusambandsins annast rekstur Rafha landamærastöðvarinnar á landamærum Gaza og Egyptalands. Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraela, mun hafa skipað þeim að loka henni. Eftirlitsmennirnir þurfa að fara í gegnum Ísrael til að koma að landamærastöðinni. Ísraelar vilja ekki sjá að peningarnir, sem eru að mestu sagðir koma frá Írönum, komist yfir landamæri. Þeir verði notaðir til að fjármagna hryðjuverk.

Herskáir Hamas-liðar brugðust ókvæða við þessari lokun, réðust á landamærastöðina og tóku þar völdin af vörðum. Engan mun hafa sakað. Eftir það áhlaup virðist sem Hamas liðar hafi ákveðið að Haniyeh færi heim án peninganna sem sendifulltrúar á hans vegum kæmu með síðar.Haniyeh stytti ferðalag sitt og sneri heim í dag þar sem spennan á Gaza svæðinu hefur magnast síðustu daga, eða frá því að þrír ungir synir Fatah-liða í öryggissveitum Palestínumanna voru myrtir fyrir utan skóla sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×