Innlent

Rannsóknarnefnd þingsins eða fræðimenn?

MYND/Stefán

Harðar deilur voru á Alþingi í dag um hlerunarmál. Voru allir þingmenn sem tóku þátt í þeim sammála um að rannsaka ætti málin ofan í kjölinn en þeim bar ekki saman um hvernig það ætti að gera. Stjórnarandstaðan vill rannsóknarnefnd en stjórnarliðar vilja bíða niðurstöðu nefndar sem Páls Hreinsson fer fyrir og á fjalla um aðgang fræðimanna að opinberum gögnum um öryggismál landins á árunum 1941-991.

Það var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sem var málshefjandi í utandagskrárumræðu á Alþingi um hleranir og gerði nýútkomna bók Guðna Th. Jóhannessonar, Óvinir ríkisins, að umtalsefni sínu.

Vísaði hún til hádegisfundar sem haldinn hefði verið á miðvikudag þar sem spurt hefði verið hvor „þeir" sem njósnað hefði verið um hefðu ógnað öryggi ríkisins. Fram hefði komið í svari Guðna Th. Jóhannessonar við það tilefni að engin ógn hefði verið til staðar. Taldi Ingibjörg stjórnvöld á eftirstríðsárunum seilst of langt í eftirliti með íslenskum borgurum og benti á að margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, t.d. á þingi og í verkalýðsforystunni, hefðu verið hleraðir.

Sagðist hún vilja stofna rannsóknarnefnd til þess að fara yfir hlerunarmál og að hún hefði sent formönnum stjórnmálaflokkanna og þingflokksformönnum þingsályktunartillögu þar að lútandi. Hugðist hún spyrja Geir H,. Haarde forsætisráðherra hvort hann vildi beita sér fyrir því að stofna slíka nefnd en hann var ekki á þingi og því var til svara Árni Mathiesen, staðgengill dómsmálaráðherra.

Árni benti á að um fá tilvik hlerana væri að ræða og að þau tengdust flest heimsóknum erlendra aðila og samskiptum við erlend ríki. Sagði hann enn fremur engar engar upplýsingar liggja fyrir um hleranir án dómsúrskurðar eða pólitískar hlerarnir. Ekki væri því hægt að halda því fram að ríkisvaldinu hefði verið misbeitt.

Vísaði hann einnig til þess að Hermann Jónasson, Einar Ágústsson og Steingrímur Hermannsson hefðu allir í stjórnartíð sinni vitað af málunum og sagði Alþýðuflokkinn meðal annars hafa unnið í ríkisstjórn Hermanns. Benti hann enn fremur á að nefnd undir forystu Páls Hreinssonar væri að störfum vegna málsins og ætti hún að skila niðurstöðum í málinu fyrir áramót. Taldi Árni eðlilegast að fræðimenn fjölluðu um hlerunarmálin fremur en að stjórnmálamenn kæmu að þeim með rannsóknarnefnd og mörkuðu einhvers konar ríkissögu í málinu.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði ræðu Árna stórundarlega en dæmigerða fyrir undanbrögð Sjálfstæðisflokksins í málinu. Hann hefði sagt að ekki hefðu verið brotin mannréttindi á mörgum mönnum og reynt að klína málinu á framsóknarmenn.

Sagði hann enn fremur að nefnd Páls Hreinssonar dygði ekki og spurði hvers vegna núverandi forysta Sjálfstæðisfloksins væri að verja gjörðir fyrirrennara sinna á þennan hátt. Sagði Steingrímur málið ekki snúast um símhlerarnir heldur leyniþjónustustarfsemi þar sem grófar pólitískar njósnir hefðu átt sér stað.

Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, benti á að þetta væri í fimmta sinn sem rætt væri um hleranir á Alþingi í haust. Sagði hann stefnu Framsóknaflokksins skýra í málinu, hann vildi öll gögn upp á borðið. Guðjón taldi þó að mikilvægt væri að bíða niðurstöðu nefndar Páls Hreinssonar í málinu áður en næstu skref yrðu tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×