Innlent

Ættleiðingarstyrkur

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynnti niðurstöðu starfshóps á vegum ráðuneytisins en hann leggur til að veittur verði 480 þúsund króna styrkur til foreldra sem ættleiða börn í gegnum löggild ættleiðingarfélög. Styrkurinn verður undanþeginn staðgreiðslu. Foreldrar barna sem koma til landsins eftir gildistöku laganna eiga rétt á styrknum.

Ríkisstjórnin er samþykk frumvarpi um málið, en Magnús vonast til að lögin geti tekið gildi 1. janúar. Hann segist viss um að þau verði samþykkt, einungis sé spurning um hvort það náist fyrir jólafrí þingmanna 9. desember.

Kostnaður foreldra er að meðaltali um ein og hálf milljón. Karl Steinar Valsson varaformaður Íslenskrar ættleiðingar segir styrkinn mjög mikilvægan, hann létti undir með foreldrum ættleiddra barna. Hann segir ferlið taka á hjá flestum foreldrum, allt frá því að taka ákvörðun um ættleiðingu þar til barnið kemur, en þá taki við endalaus hamingja.

Málþing um kjörbörn á íslandi verður á vegum Íslenskrar ættleiðingar klukkan tíu á morgun í Vídalínskirkju í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×