Erlent

Mikill viðbúnaður vegna heimsóknar Bush til Indónesíu

Hermenn á verði vegna heimsóknar Bush til Indónesíu, en hann fundar með Bambang í forsetahöllinni fyrir utan Djakarta.
Hermenn á verði vegna heimsóknar Bush til Indónesíu, en hann fundar með Bambang í forsetahöllinni fyrir utan Djakarta. MYND/AP

Mikill viðbúnaður var í Djakarta, höfuðborg Indónesíu, í dag þegar George Bush, forseti Bandaríkjanna, kom þangað í stutta heimsókn á reisu sinni um Asíu. Búist var við háværum mótmælum í borginni, en forsetinn virðist ekki í miklum metum hjá harðlínumönnum í þessu fjölmennasta múslímaríki í heimi vegna stefnu Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum og í Írak.

Bush staldrar aðeins við í sex klukkustundir í Indónesíu og ræðir við forseta landsins, Susilo Bambang, meðal annars um stríðið gegn hryðjuverkum og lýðræðisþróun í Indónesíu. Harðlínumenn hafa staðið fyrir fjölmörgum mótmælagöngum að undanförnu vegna komu Bush sem þeir segja stríðsglæpamann og hryðjuverkamann.

Þá sagði lögregla í Indónesíu að hún væri að rannsaka óstaðfestar fregnir þess efnis að maður með sprengjubelti um sig miðjan hygðist gera árás á Bush og fylgdarlið hans í heimsókninni en talsmenn Hvíta hússins segja nægar öryggisráðstafanir hafa verið gerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×