Innlent

Netabáti bjargað í innsiglingunni í Sandgerði

MYND Víkurfréttir

Björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Sandgerði tókst á miðnætti að bjarga Ársæli ÁR-66 af strandstað í innsiglingunni til Sandgerðis.  Ársæll ÁR, sem er tæplega 200 brúttólesta netabátur hafði siglt af leið í innsiglingunni og strandaði á leið sinni upp í Eyrina við Sandgerði. 

Fjölmennt björgunarlið á Hannesi Þ. Hafstein og öðrum björgunarbátum brugðust skjótt við neyðarkallinu frá netabátnum.  Agnar Trausti Júlíusson, skipsstjóri á björgunarskipinu Hannesi Þ. Hafstein, sagði í samtali við NFS að svo virtist sem skipið hafi setið fast undir miðju skipins. Þannig hafi bæði stefni og skutur verið laus en skipið sat á miðjum skrokknum.  Það var síðan dótturbátur Hannesar Þ. Hafstein, Siggi Guðjóns, sem losaði Ársæl ÁR af strandstað með því að ýta honum af festunni. Ársæll ÁR sigldi síðan til hafnar undir eigin vélarafli. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort skemmdir hafa orðið á skipinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×