Innlent

35 stiga frost í Reykjavík

Það er víða mjög hvasst á landinu og sumstaðar mjög snarpar og hættulegar vindhviður, einkum á Kjalarnesi þar sem vindhviður hafa verið að slá upp undir 40 m/s núna eftir hádegi og svipaða sögu er að segja sunnan Vatnajökuls, við Lómagnúp. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur á Veðurstofu NFS segir að það verði mjög hvasst í allan dag á landinu með snörpum hviðum, einkum á svæðum sem eru krítísk í norðaustan áttum, eins og Kjalarnesið.

„ Það má búast við stormi á Suðausturlandi fram á nóttina en annars staðar byrjar að lægja með kvöldinu, og á morgun verður yfirleitt komin hæg norðlæg átt, þó verður áfram hvasst suðaustan til" segir Sigurður.

Í höfuðborginni er vindhraðinn um 12 m/s að jafnaði en slær í 20 m/s í hviðum. „ Þegar ég reikna saman lofthitann í borginni sem er um -6 stig og vindhraða um 13 m/s þá jafngildir vindkælingin því að vera í 35 stiga frosti í logni. Það er bláköld staðreyndin og því beinlínis varhugavert að láta sér verða mjög kalt í þessu veðri. Það gæti komið illa niður á sumum" segir Sigurður. Áfram verður kalt næstu daga, raunar ívið kaldara en vindurinn dettur smám saman niður og það eru jákvæðu fréttirnar, segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×