Erlent

Búist við spennandi kosninganótt

Bandaríski demókrataflokkurinn fær meirihluta í fulltrúadeildinni í þingkosningunum í dag ef marka má skoðanakannanir. Því er spáð að repúblíkanar haldi meirihluta sínum í öldungadeild. Kosningabaráttan hefur verið hörð og hafa demókratar tapað niður nokkru forskoti á síðustu dögum kosningabaráttunnar.

Bandaríkjamenn gengu að kjörborðinu í dag til að kjósa milli frambjóðenda til beggja þingdeilda. Kosið er um öll 435 þingsæti í fulltrúadeild og 33 öldungadeildarþingsæti, eða þriðjung þeirra. Auk þess er kosið um fylkisstjóra í 36 fylkjum. Einnig eru greidd atkvæði í nokkrum ríkjum um lagasetningar innan þeirra, meðal annars um hjónabönd samkynhneigðra, rannsóknir á stofnfrumum úr fósturvísum og lágmarkslaun. Þess fyrir utan líta margir á kosningarnar nú sem atkvæðagreiðslu um stefnu Bush stjórnarinnar í Írak og á ýmsum öðrum sviðum.

Einhverjir kjósendur sögðust hafa greitt atkvæði gegn ástandinu í Írak, aðrir sögðu þörf á að breyta til í þingdeildunum. Aðrir sögðu þörf á staðfestu í stefnu gagnvart Írak og það viðhorf endurspeglaði val þeirra.

Bush Bandaríkjaforseti greiddi atkvæði í Crawford í Texas. Aðspurður sagðist hann búinn að gera upp hug sinn þar sem hann gekk inn á kjörstað í Crawford í Texas.

Forsetinn hefur farið fylkjanna á milli síðustu daga til að styðja flokkssystkini í baráttunni við demókrata. Ekki hafa þó allir tekið honum fagnandi og sem dæmi þurfti Bush einn að brýna kjósendur flokksins í Flórída í gær þar sem frambjóðandi repúblíkana til fylkisstjóra þar kaus að reka endahnútinn á kosningabaráttu sína fjarri forsetanum.

Hilary Clinton er einn öldungardeildarþingmanna berst fyrir sæti sínu nú. Hún sagðist vonast eftir góðri kosningaþátttöku þar sem margt sé í húfi. Hún segist vona að demókratar fái meirihluta í þingdeildunum. Ekki er þó líklegt að þingmanninum verði að ósk sinni hvað varðar kjörsókn því ekki er búist við að hún fari yfir 40%.

Fyrstu kjörstöðum verður lokað um klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma og má búast við fyrstu tölum upp úr miðnætti. Nánar verður fjallað um kosningarnar í Íslandi í dag hér á eftir og fylgst með úrslitum hér á visir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×