Erlent

Dómur kveðinn upp yfir Hussein á sunnudag

MYND/AP

Búist er við því að dómur verði kveðinn upp á sunnudag yfir Saddam Hussein, fyrrverandi forseta Íraks, og sjö samverkamönnum hans vegna morðs á nærri 150 sjítum í bænum Dujail árið 1982. Fólkið lét hann drepa eftir að reynt var að ráða hann af dögum í bænum. Fari svo að hann verði sakfelldur má búast við því að hans bíði dauðadómur sem framfylgt verður með hengingu.

Saddam Hussein var steypt af stóli með innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í mars árið 2003. Hussein komst hins vegar undan og var í felum allt fram til ársloka 2003 að hann var handsamaður.

Réttarhöldin í málinu, sem hófust í október í fyrra, hafa þótt farsakennd og hefur dómari oft þurft að vísa Saddam úr dómsal vegna háreystis. Þá hafa þrír lögmenn úr verjendateymi Saddams og samverkamanna hans verið drepnir.

Hussein hefur verið sakaður um fleiri glæpi og enn standa yfir réttarhöld yfir honum og mönnum úr stjórnartíð hans vegna þjóðarmorðs á Kúrdum seint á níunda áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×