Erlent

Bók um smábörn sögð lífshættuleg

Margir sérfræðingar, á Norðurlöndunum, vara eindregið við sænskri bók um barnauppeldi, sem þeir segja að sé beinlínis lífshættuleg börnum. Höfundurinn er Anna Wahlgren, sem sjálf er ellefu barna móðir.

Bókin heitir "Sofðu alla nóttina" og þar er foreldrum meðal annars gefið það ráð að láta ungbörn sofa á maganum. Í tilefni af því að bókin er nú að koma út í Noregi, hafa norskir læknar og aðrir sérfræðingar varað eindregið við að hlíta þessu ráði.

Það er opinber stefna norskra heilbrigðisyfirvalda að börn eigi að sofa liggjandi á bakinu. Síðan sú stefna var kynnt árið 1989 er vöggudauði sagður hafa minnkað um áttatíu prósent.

Viðbrögðin við bók Wahlgrens voru þau sömu þegar bókin kom út í Svíþjóð, á sínum tíma, og höfundurinn er ekki hrifin af því að þetta skuli endurtaka sig í Noregi. Hún blæs á viðvaranir læknanna og heldur fast við að börn sofi betur á maganum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×