Erlent

Ein eftirlitsmyndavél á hverja 14 Breta

Í Bretlandi fylgist ein eftirlitsmyndavél með hverjum fjórtán íbúum, og það er von á fleirum. Formaður bresku Persónuverndarinnar óttast að Bretland sé orðið að því eftirlitsþjóðfélagi sem George Orwell sá fyrir í bók sinni 1984.

Richard Thomas, sagði í dag að það væri löngu tímabært að hefja umræðu um hvert stefndi í eftirliti með hinum almenni borgara. Í landinu eru 4,2 milljónir eftirlitsmyndavéla og það eru fleiri og fullkomnari myndavélar á leiðinni, sem ekki aðeins taka myndir af fólki heldur hlera einnig samtöl þess.

Dæmigerður Breti má búast við því að hann náist í eftirlitsmyndavél 300 sinnum á dag. Thomas sagði að í vissum tilfellum gætu myndavélar hjálpað til í baráttunni gegn glæpum og hryðjuverkum, en í öðrum tilfellum gætu þær alið á ótta og tortryggni.

Í nokkrum lögregluumdæmum eru nú áætlanir um fjarstýrðar njósnavélar sem sveima yfir borgum og bæjum og senda myndir jafnóðum til jarðstöðva.

Thomas segir að því sé nauðsynlegt að hefja opinbera umræðu um hversu langt á að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×