Erlent

Skattasniðganga og hugsanlegt peningaþvætti

Skipulagið að baki uppkaupum Íslendinga í Danmörku, Svíþjóð og á Englandi leiðir hugan að svokallaðri skattasniðgöngu og hugsanlegu peningaþvætti, að sögn sérfræðinga sem danska Ekstra-blaðið hefur rætt við. Umfjöllun blaðsins um útrás íslenskra kaupsýslumanna hófst í útgáfu þess í morgun og verður haldið áfram næstu daga.

Blaðið segir að Kaupþing banki hafi komið sér upp flóknu, leynilegu og alþjóðlegu kerfi skattaskjóla sem að hluta til sé notað til að færa miklar fjárhæðir fram og til baka í fjármálakerfinu án þess að athygli vekji. Einnig sé það notað til að gera bankanum og viðskiptavinum hans mögulegt að sleppa við að greiða skatta.

Blaðið vitnar til skattasérfræðingsins Christen Amby, sem segir að Íslendingarnir taki fé út úr fyrirtækjum sínum í Danmörku og flytji það í gegnum Lúxemborg áfram til annarra landa án þess að borga skatta af því í Danmörku.

Amby segir stóra fjárfestingarstjóði nýta sér svipað fyrirkomulag. Reglan sem gildi sé sú að ef arður af rekstri fyrirtækja sé fluttur frá Danmörku til skattaskjóla beri að halda skatti af arðinum eftir. Hann hverfi hins vegar ef peningarnir séu færðir til Lúxemborgar.

Blaðið ræddi einnig við Lars Bo Langsted, prófessor í fyrirtækjarétti, en hann er sérfræðingur í efnahagsbrotum. Hann segir ýmsar skýringar geta verið á flóknu fyrirtækjaneti Íslendinga. Þeir geti verið að reyna að ná fram eins miklu skattahagræði og þeir geti án þess að gripið sé til ólöglegra aðferða. Svo geti verið að þeir vilji fela hvaðan féð komi og nota til þess fyrirtækjakeðjur til að hvítþvo peninga.

Langsted segir að hver svo sem skýringin kunni að vera sé erfitt að skýra svona flókna fyrirtækjauppbyggingu einvörðungu með efnahags- eða skipulagsrökum.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður KB-banka segir umfjöllun danska Ekstra-blaðsins í dag, um málefni tengd bankanum, ekki rétta. Vinnuaðferðir bankans séu ekki öðruvísi en hjá öðrum alþjóðlegum. bönkum. Hann telur ekki ástæðu til aðgerða af hálfu bankans vegna greinarinnar.

Ekstra-blaðið boðar frekari umfjöllun um íslenska kaupsýslumenn fram eftir vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×