Erlent

Argentínumenn vilja kaupa hergögn frá Rússum

Nilda Garre, varnarmálaráðherra Argentínu, og Sergei Ivanov, varnarmálaráðherra Rússlands, eftir fund þeirra í Moskvu í dag.
Nilda Garre, varnarmálaráðherra Argentínu, og Sergei Ivanov, varnarmálaráðherra Rússlands, eftir fund þeirra í Moskvu í dag. MYND/AP

Stjórnvöld í Argentínu hafa afhent Rússum eins konar innkaupalista yfir þau hergögn sem Argentínumenn ásælist og vilji kaupa af þeim. Sergei Ivanov, varnarmálaráðherra Rússlands, greindi frá þessu eftir viðræður við starfsbróður sinn frá Argentínu í dag. Itar-Tass fréttastofan rússneska greinir frá þessu.

Rússar hafa ögrað Bandaríkjamönnum með því að selja stjórnvöldum í Venesúela hergögn að andvirði rúmlega 3 milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega tvö hundruð milljarða íslenskra króna. Hugo Chavez, forseti Venesúela kom í opinbera heimsókn til Rússlands í júlí. Stjórnvöld í Moskvu hafa mikinn áhuga á því að auka hergagnasölu sína til ríkja í rómönsku Ameríku.

Nilda Garre, varnarmálaráðherra Argentínu, segir þarlend stjórnvöld sem stendur ekki geta útvegað hermönnum sínum þau hergögn og vopn sem þurfi og Rússar skilji það vandamál. Stjórnvöld í Buenos Aires hafi ekki áhyggjur af viðbrögðum Bandaríkjamanna. Hverju fullvalda ríki leyfist að kaupa vopn og hergögn.

RIA-fréttastofan hefur eftir Garre að Argentínumenn hafi áhuga á rússneskum loftvarnarkerfum og þyrlum. Þeir hafi einnig áhuga á flugeftirlitskerfum fyrir farþegaflug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×