Innlent

Grundvöllur fyrir aðild að ESB innan fjögurra ára

MYND/GVA

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, telur að grundvöllur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu verði kominn innan fjögurra ára. Þetta kom fram í erindi hans á ráðstefnu Evrópusamtakanna sem haldin var í gær undir heitinu Staða smáríkja í alþjóðlegu samstarfi.

Fram kemur í tilkynningu frá Evrópusamtökunum að ráðherrann fyrrverandi hafi fjallað um undirstöður íslenskrar utanríkispólitíkur frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar, sem væri aðild að Norðurlandaráði, NATO og EFTA. Þessar forsendur væru nú breyttar meðal annars vegna kerfisbreytinga í sjávarútvegi, sterkari stöðu hans á alþjóðavettvangi og minnkandi vægi hans í heildargjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þá hefði vægi Norðurlandaráðs minnkað og staða NATO breyst auk þess sem íslenska krónan hefði verið óstöðug í því opna hagkerfi sem nú væri við lýði.

Þorsteinn taldi ekki líklegt að þetta yrði kosningamál næsta vor en grundvöllur fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði kominn innan fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×