Erlent

Reyna að hræða flokksmenn sína með Hillary Clinton

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, er farinn að hræða repúblikana til þess að halda tryggð við flokkinn, með því að segja að ef þeir geri það ekki geti Hillary Clinton orðið næsti forseti Bandaríkjanna.

Skoðanakannanir benda til þess að repúblikanar missi meirihluta sinn á þingi, í kosningunum í næsta mánuði. Kannanirnar benda til þess að margir stuðningsmenn flokksins séu svo óánægðir með frammistöðu forsetans og þróun mála í Írak, að þeir muni svíkja lit á kjördag.

Hægri menn í Bandaríkjunum hafa því hafið mikla herferð til þess að ná sínu fólki aftur. Meðal annars lýsti Dick Cheney því yfir að Hillary væri sterkur frambjóðandi, sem vel gæti orðið forseti árið 2008.

Hillary hatar hægri menn og hægri menn hata Hillary. Þeir eru síður en svo búnir að fyrirgefa henni hvassar árásir hennar, meðan hún og Bill Clinton bjuggu í Hvíta húsinu. Flokksforystan vonar að það geti dugað til þess að hræða menn til að kjósa flokkinn á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×