Erlent

Lögreglan lúskraði á mótmælendum

Lögreglan í Búdapest í Ungverjalandi beitti táragasi gegn mótmælendum sem safnast höfðu saman við þinghús landsins til að minnast þess að hálf öld er í dag liðin frá því að uppreisn hófst gegn leppstjórn Sovétmanna í landinu.

Það var þennan dag árið 1956 sem hópur ungverskra stúdenta fylkti liði að þinghúsinu í Búdapest til að mótmæla ungversku ríkisstjórninni, sem á þeim tíma var einungis taglhnýtingingur ráðsherranna í Kreml. Uppreisnin breiddist fljótt út um landið og stjórnin féll. Tólf dögum síðar réðist Rauði herinn inn í landið og barði niður uppreisnina af mikilli hörku. 2.600 Ungverjar létust í átökum og 200 til viðbótar voru teknir af lífi. Um 200.000 manns flýðu land. Fátt benti til þess í dag að atburðurnir fyrir fimmtíu árum hefðu þjappað þjóðinni saman. Þvert á móti logaði allt í átökum fyrir utan þetta sama þinghús í dag. Um eitt þúsund mótmælendur voru þar samankomnir til að láta í ljós óánægju sína með forsætisráðherrann Ferens Djúrsjaní en á dögunum kom í ljós að hann hefði logið ítrekað að kjósendum um efnahagsástandið. Lögreglan tók mótmælendur engum vettlingatökum heldur skaut á þá gúmmíkúlum og dreifði táragasi. Nokkrum þeirra tókst að komast um borð í skriðdreka, sem stóð á torginu til minningar um byltinguna, og aka honum nokkurn spöl. Nú undir kvöld var ástandið farið að róast en þá höfðu nokkrir verið handteknir og allmargir meiðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×