Erlent

Önnur umferð nauðsynleg í Búlgaríu

Georgi Parvanov hefur hlotið lof í Búlgaríu fyrir frammistöðu sína á alþjóðavettvangi.
Georgi Parvanov hefur hlotið lof í Búlgaríu fyrir frammistöðu sína á alþjóðavettvangi.

Georgi Parvanov, forseti Búlgaríu og frambjóðandi sósíalista, vann fyrri umferð forsetakosninga í Búlgaríu með miklum yfirburðum. Hins vegar var þátttaka í kosningunum svo lítil að nauðsynlegt er að kjósa að nýju í annarri umferð milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu.

Parvanov var þó sigurviss þegar hann ræddi við fréttamenn í dag.

"Þegar tölurnar eru svona þá þarf maður engar áhyggjur að hafa," sagði hann.

Parvanov fékk rúmlega 63 prósent atkvæða en sá sem næstur kom, Volen Siderov, fékk rétt yfir 21 prósent. Siderov er leiðtogi flokks sem kallar sig Árás, og berst gegn réttindum minnihlutahópa.

Búlgaría gengur í Evrópusambandið um áramótin, sautján árum eftir fall kommúnistastjórnarinnar í landinu árið 1989. Sósíalistaflokkur Parvanovs er arftaki kommúnistaflokksins sem réði ríkjum í Búlgaríu í skjóli Sovétríkjanna á kaldastríðsárunum.

Parvanov er 49 ára sagnfræðingur sem er talinn hafa verið góður fulltrúi fyrir Búlgaríu á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×