Erlent

Hættir viðræðum við Farc-skæruliða

Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu.
Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu. MYND/AP

Alvaro Uribe, forseti Kólumbíu, hefur hætt viðræðum um fangaskipti við Farc-skæruliða. Uribe kennir skæruliðunum um sprengjuárás í höfuðborginni, Bogota, í gær. Rúmlega 20 særðust í árásinni. Uribe segir nú ekki hægt að gera annað en að senda herinn til að bjarga gíslum úr klóm skæruliðanna. Um það bil 3.000 gíslar eru í haldi skæruliðanna, þar á meðal um það bil 60 stjórnmálamenn og útlendingar.

Fréttaritari BBC í Kólumbíu segir forsetann hafa svarað árásinni frá í gær skjótt og með ákveðnum hætti. Uribe hafi lokað fyrir þann möguleika að setjast niður til viðræðna við Farc-skæruliða. Hann líti á samningaviðræður við skæruliðana sem skrípaleik.

Ákvörðun forsetans er sögð mikið áfall fyrir ættingja þeirra sem eru í haldi skæruliða. Þeir sem lengst hafa verið í klóm þeirra hafa verið í haldi í rúm 7 ár.

Meðal þeirra sem þekktustu gíslann er Ingrid Betancourt, fyrrverandi forsetaframbjóðandi í Kólumbíu. Hún er einnig með franskan ríkisborgararétt.

Farc er stærsti uppreisnarhópur í Kólubmíu og hefur barist við stjórnvöld í rúma fjóra áratugi.

Stjórnvöld í Bogota halda hins vegar áfram viðræðum við uppreisnarhóp ELN, sem er næst stærstur. Þær viðræður fara fram í Havana á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×