Innlent

Grundvöllur skylduaðildar brostinn ef til skerðingar kemur

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands skorar á stjórnir þeirra fjórtán lífeyrissjóða sem boðað hafa skerðingar og niðurfellingar lífeyrisgreiðslna til öryrkja að hverfa frá þeim áformum sínum. Að öðrum kosti lítur Öryrkjabandalagið svo á að grundvöllur núverandi skylduaðildar að lífeyrissjóðunum í landinu sé brostinn. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundarins sem fram fór í gær.

„Komi aðgerðirnar til framkvæmda munu þær bitna allra verst á fátækasta fólkinu á Íslandi en þær munu ræna marga öryrkja lífeyrisréttindum sínum. Sýnt hefur verið fram á að forsendur fyrir aðgerðunum eru rangar, þær stangast á við lög og stjórnarskrárvarinn rétt.

Nauðsynlegt er að skapa svigrúm til að fara mun betur yfir málið í heild sinni og leita annarra lausna á vanda lífeyrissjóðakerfisins en að ráðast að kjörum öryrkja. Öryrkjabandalagið er reiðubúið að leggja hönd á plóg að því tilskildu að hætt verði við boðaðar aðgerðir.

Aðgerðir lífeyrissjóðanna sýna, svo ekki verður um villst, fram á nauðsyn þess að breyta núverandi tekjutengingakerfi almannatrygginga og lífeyrissjóða með lögum þannig að kerfið verði einfaldara, réttlátara og atvinnuhvetjandi. Brýnt er að hefjast handa um þetta verkefni nú þegar," segir í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×