Erlent

Hótar Íslendingum ófarnaði

Sjávarútvegsráðherra Bretlands segir að Íslendingum muni hefnast fyrir að hefja hvalveiðar og spáir því að Bretar muni sniðganga íslenskar vörur og þjónustu. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig lýst yfir vonbrigðum með veiðarnar. Valgerður Sverrisdóttir kveðst litlar áhyggjur hafa af viðbrögðunum.

Ben Bradshaw, sjávarútvegsráðherra Bretlands, segir stefnu íslenskra stjórnvalda óskiljanlega og óafsakanlega. Hann segir engin rök að baki ákvörðuninni. Auk þess geti Íslendingar varla fundið markað fyrir hvalkjöt. Spurður að fréttamanni NFS kvaðst hann ekki mundu beita sér fyrir efnahagsþvingunum gegn Íslendingum vegna málsins. Aftur á móti sagði Bradshaw ýmis teikn á lofti um að Bretar, og raunar fólk um allan heim, ætlaði að sniðganga íslenskar vörur og þjónustu.

Erlendir fjölmiðlar halda áfram að fjalla um hvalveiðar Íslendinga, til dæmis var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra í sjónvarpsviðtali hjá BBC í dag. Bandarísk stjórnvöld bættust í morgun í hóp þeirra sem lýstu vonbrigðum með veiðarnar. Tónninn í bréfi Carlos M. Gutierrez, viðskiptaráðherra landsins, er þó mun mildari en hjá breskum ráðamönnum Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra kvaðst í morgun í samtali við NFS hafa litlar áhyggjur af viðbrögðunum. Hún benti á að andstaða Breta við hvalveiðarnar væri þekkt og sakaði svo Bandaríkjamenn um tvískinnung því þeir veiddu sjálfir allra þjóða mest af hvölum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×