Erlent

Enn óvíst hverjir taka sæti Argentínu í Öryggisráði SÞ

Jorge Valero, vara-utanríkisráðherra Venesúela, ræðir við fulltrúa Ekvador á Allsherjarþinginu skömmu áður en greidd voru atkvæði um skipan í sætið í 16. sinn í dag.
Jorge Valero, vara-utanríkisráðherra Venesúela, ræðir við fulltrúa Ekvador á Allsherjarþinginu skömmu áður en greidd voru atkvæði um skipan í sætið í 16. sinn í dag. MYND/AP

Atkvæðagreiðslum um arfta Argentínumanna í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur verið frestað um sólahring svo hægt verði að ræða næstu skref. Gvatemala og Venesúela berjast um sætið en hvorugu ríki hefur tekist að fá 2/3 atkvæða á Allsherjarþinginu sem þarf til að hreppa hnossið. Í dag og í gær er búið að greiða atkvæði 21 sinni og hefur Gvatemala haft vinningin, en betur má ef duga skal.

Barist er um sæti í ráðinu sem er ætlað rómönsku Ameríku. Litið er á baráttu ríkjanna sem birtingarmynd þeirra deilu sem hefur verið í gangi milli Bandaríkjanna og Venesúela. Hugo Chavez, forseti Venesúela, hefur gagnrýnt bandarísk stjórnvöld harðlega og sagt Bush Bandaríkjaforseta djöful í mannsmynd.

Francisco Javier Arias Cardenas, sendifulltrúi Venesúela hjá SÞ, segir stjórnvöld í Caracas aðeins víkja ef Bandaríkjamenn hætti að reyna að hafa áhrif á fulltrúa ríkja á þinginu til að tryggja Gvatemala sigur.

Ríki rómönsku Ameríku binda vonir við að hægt verði að sættast á að annað land taki sætið af Argentínu í upphafi næsta árs. Ráðamenn í Chile leggja áherslu á að sú leið verði farin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×