Innlent

Sökuðu ríkisstjórnina um hernað fólkinu í landinu

Þingmenn Samfylkingarinnar saka ríkisstjórnina um hernað gegn fólkinu í landinu með sérhagsmunagæslu í þágu mjólkuriðnaðar. Landbúnaðarráðherra segir hins vegar að stjórnvöld væru að koma aftan að bændum og mjólkuriðnaði ef samkeppnisumhverfi hans yrði breytt.

Viðbrögð Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra við úrskurði Samkeppniseftirlitsins þess efnis að Osta- og smjörsalan hefði brotið gegn Mjólku og misnotað markaðsráðandi stöðu sína urðu tilefni orðaskipta á Alþingi.

Ágúst Ólafur Ágústsson fór fyrir þingmönnum Samfylkingarinnar og sagði að núverandi stefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaði væri hernaður gegn fólkinu í landinu. Hún skilaði bændum verri kjörum, neytendum hæsta verði í Evrópu og einokun og ófrelsi í öllum framförum. Sem fyrr væri landbúnaðarráðherra óvinur neytenda og dragbítur á bændur. Hann væri þó ekki einn því meirihluti Sjálfstæðisflokksins fylgdi á eftir.

Ráðherra varði núverandi löggjöf. Hann sagði að hann ætlaði ekki að halda því fram að núverandi fyrirkomulag væri gallalaust en hann teldi sig koma aftan að bændum og mjólkuriðnaði ef hann eða Alþingi breytti lögunum nú. Þetta hefði verið sáttagjörð sem snúið hefði að nýjum mjólkurvörusamningi meðal bænda og væntanlegum breytingum á alþjóðaumhverfi. Þetta hefði einnig verið gert út frá jafnræði og jöfnum aðgangi smærri verslana í miskunnarlausri samkeppni við stórar verslanakeðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×