Innlent

Gagnrýna hvor aðra fyrir gagnrýni

Ríkisendurskoðun og Umhverfisstofnun gagnrýna nú hvor aðra fyrir gagnrýni hvorrar á verkum annarrar og er mergur málsins orðinn aukaatriði.

Í úttekt Ríkisendurskoðunar á Umhverfisstofnun sem nýverið var birt er meðal annars gagnrýnt að ekki hafi náðst þau samlegðaráhrif sem stefnt var að með sameiningu ýmissa embætta og stofnana í eina Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun brást hart við þessari gagnrýni og gagnrýndi á móti vinnubrögð Ríkisendurskoðunar við úttektina. Meðal annars að Ríkisendurskoðun hafi byggt á alvarlegum staðreyndarvilum og röngu mati á fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun hafi beint úttektinni í aðrar áttir en til stóð og því misst sjónir á megintilgangi hennar.

Þessari gagnrýni unir Ríkisendurskoðun ekki heldur gagnrýnir Umhverfisstofnun fyrir málflutninginn og segir í stuttu máli að hún ráði sjálf hvernig hún geri úttektir á stofnunum og að stofnanir, sem sæta úttekt, ráði ekki hver niðurstaðan verði.

Allir eru búnir að gleyma tillögum Ríkisendurskoðunar til úrbóta í rekstri Umhverfisstofnunar en bíða nú eftir næsta leik Umhverfisstofnunar þar sem hún er tvö- eitt undir í slagnum þessa stundina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×